Scopoderm
1,00 mg/72kls - 2 stkScopoderm er við ferðaveiki eins og bílveiki, flugveiki eða sjóveiki. Virka efnið skópólamín dregur úr áhrifum boðefnisins asetýlkólíns í heila og ógleði og uppköst verða fátíðari.
Lyfið er gefið í forðaplástri sem er límdur á húðina á bak við eyrað. Það berst síðan með jöfnum hraða úr plástrinum, gegnum húðina og inn í blóðrásina. Með þessu móti fæst stöðug þéttni lyfsins í blóði og þar veitir það vörn gegn ferðaveiki í 3 sólarhringa. Notaðan plástur má alls ekki nota aftur þegar hann hefur verið tekinn af húðinni, líka þótt hann hafi ekki verið á húðinni þessa 3 sólarhringa. Æskilegt er að þvo húðina undan plástrinum eftir að hann hefur verið fjarlægður. Plásturinn þolir að farið sé með hann í bað. Mjög mikilvægt er að þvo sér vel um hendur eftir að búið er að líma plásturinn á húðina og gæta þess vel að lyfið berist ekki í augun. Þá verður líka að brjóta saman notaðan plástur og fleygja honum þangað sem engin hætta er á að börn komist í hann því að leifar af lyfinu verða alltaf eftir í plástrinum.
Notkun:
- Fullorðnir og börn eldri en 10 ára: 1 forðaplástur er settur á húðina á bak við eyrað minnst 5-6 klst. áður en ferðin hefst, jafnvel kvöldið áður. Þetta veitir vernd gegn ferðaveiki í a.m.k. 72 klst. Þegar ferð er lokið á að fjarlægja plásturinn, en ekki síðar en 72 klst. eftir að hann var settur á.
- Einn forðaplástur gefur frá sér um 1 mg af skópólamíni á 72 klst.
Lesið leiðbeiningar í fylgiseðli vel.